Greinar um hreyfinguHreyfing

Tengsl lífsstíls og krabbameins – Líkamleg virkni

Skýrslan sem við höfum verið að fjalla um hér á Heilsubankanum setur fram nokkrar ráðleggingar sem gefast best í forvörnum við krabbameini.

Ráðlegging númer tvö snýr að hreyfingu:

 

Leggið stund á hreyfingu sem hluta af daglegu lífi

Markmið hverrar þjóðar ætti að vera að helminga þann fjölda sem þjáist af kyrrsetu á hverju 10 ára tímabili

  • Byrjið á að leggja stund á létta hreyfingu eins og röska göngu í a.m.k. 30 mínútur á hverjum degi.
  • Þegar þið hafið byggt upp þol, stefnið þá að því að auka hreyfinguna upp í 60 mínútur, eða ástundið kröftuga hreyfingu eins og t.d. hlaup í 30 mínútur, á degi hverjum.
  • Dragið úr athöfnum sem hafa kyrrsetu í för með sér, eins og sjónvarpsáhorf.
  • Það er staðreynd að líkamleg virkni eins og ástundun reglulegrar hreyfingar hefur verndandi áhrif gegn krabbameini. Einnig vinnur regluleg hreyfing gegn offitu og á þann hátt verndar hún einnig manneskjuna á óbeinan hátt gegn krabbameini, sem offita eykur líkur á.
  • Líkamleg virkni hefur verndandi áhrif gegn ristilkrabbameini og sterkar líkur eru á að hún hafi einnig verndandi áhrif gegn brjóstakrabbameini eftir breytingarskeið og gegn krabbameini í legi.

Flest samfélög í dag hafa þróað með sér lífsstíl sem felur í sér mun minni hreyfingu en mannfólkið hefur átt að venjast. Kyrrseta verður stöðugt algengari og veldur hún fjölda sjúkdóma sem nútímasamfélagið þarf að takast á við.

Hreyfing vinnur ekki bara gegn krabbameini heldur einnig fjölda annarra sjúkdóma.

Enn meiri hreyfing en sú sem hér er mælt með er líkleg til að hafa aukin jákvæð áhrif í för með sér, svo framarlega að fólk fari varlega og varist að ofgera sér.

Auðvelt ætti að byggja inn aukna hreyfingu í daglegt líf. Ekki er nauðsynlegt að taka samfelldan tíma í ástundun hreyfingar, heldur er hægt að ná þessum tímaramma í samanlagðri hreyfingu yfir daginn.

Þannig má ganga rösklega þær vegalengdir sem farnar eru í vinnu eða þegar þið þurfið að fara ákveðinna erinda í dagsins önn. Hægt er að taka sér stutt hlé í vinnudeginum og taka stuttan, röskan göngutúr og einnig er hægt að skreppa í stuttan göngutúr á kvöldin. Veljið að ganga þegar þið hafið færi á, í stað þess að fara á bíl og veljið stigana í stað lyftu.

Kröftuga hreyfingu er best að ástunda þannig að þið megið hafa gaman af og þá ekki síst í fylgd með fjölskyldu eða vinum. Má þar nefna sund, hlaup, dans, siglingar, hjólreiðar, fjallgöngu, líkamsrækt eða hópíþróttir eins og fótbolta eða badminton.

Gott dæmi um kröftuga hreyfingu er sú sem hefur í för með sér að við svitnum vel og hjartslátturinn hækkar í 60 – 80% af hámarkshraða.

Fólk sem vinnur kyrrsetuvinnu ætti sérstaklega að gæta þess að ástunda reglulega hreyfingu.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir

Previous post

Gönguskíði

Next post

Hlaup

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *