Það slæma getur haft verndandi áhrif
Í Morgunblaðinu um daginn var frétt af norska vefnum forskning.no um að mikið líkamlegt álag vinnur gegn sjúkdómum á borð við krabbamein og alzheimer og er jafnvel hægt að mæla varnargildið eftir aðeins eitt skipti.
Rætt var við prófessor Alf Brubakk og segir hann að þegar manneskja verður fyrir verulegu, líkamlegu álagi fær skrokkurinn bæði vernd gegn sjúkdómum og ytra álagi og eru þetta oft mælanlegar afleiðingar.
Það er meira að segja hægt að mæla þessi verndaráhrif eftir aðeins eitt skipti eða eitt einstaka álag, sem bendir til þess að jafnvel fyrsta skiptið í ræktinni hefur strax jákvæð áhrif á líkamann.
Skilgreiningin á líkamlegu álagi einskorðast ekki bara við áreynslu og getur í einstökum tilvikum verið um að ræða álag sem oftast er talið beinlínis óheilsusamlegt. Dæmi um þetta er mikill kuldi eða hiti. Við það að líkaminn upplifi allt í einu mikinn kulda eða hita virkjast ákveðin “sjokkprótein” sem hafa verndandi áhrif.
(Talið er heilsusamlegt að stunda köld og heit böð og eins er talið gott að hlaupa í kalda sturtu eftir gufubað og má velta fyrir sér hvort hollustan af því komi ekki frá því sem að ofan er greint.)
Að sögn Alf Brubakks er önnur tegund líkamlegs álags, sem við lítum venjulega á sem heilsuspillandi sem getur haft þessi áhrif, en það er geislun. Hann segir að við flest vitum að geislavirkni leiðir til krabbameins en færri vita að geislavirkni í litlum skömmtum getur í raun haft verndandi áhrif gegn krabbameini. Ekki er þó vitað um hversu stórir skammtarnir mega vera.
(Þetta með geislavirknina í smáum skömmtum minnir á áhrif hómópatíunnar.)
Að lokum segir Alf Brubakk að enn sem komið er bendi allt þó til að álagið þurfi að vera töluvert og jafnvel á mörkum þess sem getur talist skaðlegt til að verndaráhrifin mælist sem mest.
Það má því segja um líkamsræktina, að mestu áhrifin samkvæmt þessu ættu að nást með stuttum og erfiðum æfingum.
Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir – Greinin birtist fyrst á vefnum í apríl 2007
No Comment