Tungan – gluggi líffæranna
Það er hægt að lesa í ójafnvægi líkamans á ýmsa vegu. Hægt er að skoða ástand húðar, hægt er að lesa ítarlega í heilsu líkamans með því að lesa í augun, skoða neglurnar og svo er það tungan.
Samkvæmt Dr. Gillian McKeith er tungan nokkurs konar gluggi líffæranna. Hún segir að tungubroddurinn sýni ástand hjartans og svæðið rétt fyrir aftan tungubroddinn sýnir ástand lungna. Hægri hlið tungunnar sýnir svo í hvaða ástandi gallblaðran er og sú vinstri sýnir lifrina. Um miðja tungu er svæði sem sýnir ástand magans og miltans og aftast á tungunni er svæði fyrir nýrun, þarmana, blöðruna og móðurlífið.
Tunga sem sýnir heilbrigðan líkama, í góðu jafnvægi, er fölrauð á litinn, mjúk og ofurlítið rök. Næfurþunn, hvít slikja er eðlileg.
Merki um að eitthvað sé að er þegar að tungan er annað hvort mikið rispuð, með djúpa skurði, þykka himnu, bólgin, með rauða bletti eða sár eru á tungunni.
Ef rispa liggur eftir miðri tungunni, sem ekki nær fram á tungubroddinn, merkir það veikbyggðan maga og að meltingin sé ekki eins og hún á að vera.
Ef tungan er ójöfn á hliðunum, með tannaför, er það merki um næringarskort.
Ef tungan er aum er það öruggt merki um næringarskort og þá oftast skort á járni, B6 vítamíni og níasíni.
Ef þú hefur brunatilfinningu í tungunni er það merki um skort á meltingarsýrum í maga.
Ef tungan er bólgin og jafnvel með þykka, hvíta skán, þá er of mikið slím í líkamanum. Það sýnir líka að það er skortur á góðri gerlaflóru og sennilega er of hátt hlutfall af gersveppum.
Ef tungan er þversprungin, með smásprungum og raufum, bendir það til slæmrar upptöku á næringarefnum.
Þykk, gul himna á tungunni sýnir að vöntun er á góðri gerlaflóru og ef himnan er aftast á tungunni er eitthvað athugavert við starfsemi þarmanna.
Rauður tungubroddur er merki um tilfinningalegt áfall, mikla streitu eða tilfinningalegt álag.
No Comment