MataræðiÝmis ráð

Ungar kókoshnetur – young coconut

Pistill frá Sollu

Þegar ég kom til Puerto Rico í fyrsta skipti á heilsustofnunina sem dr. Ann Wigmore stofnsetti þá vakti athygli mina risastór kassi eða ker fullur af grænum kókoshnetum. Þessi kassi var staðsettur í einu horninu á garðinum umhverfis stofnunina. Við kassann var afsagaður trábútur sem var notaður sem borð og stór sveðja hékk í keðju sem var fest við kassann. Á kassann var líka skrúfað tréglas sem var fullt af endurunnum sogrörum. Strax fyrsta daginn á námskeiðinu var okkur uppálagt að vera dugleg að fá okkur kókoshnetur helst 2-3 á dag. Mér fannst þetta ótrúlega góð hugmynd, það einasta var að ég var frekar klaufaleg við að opna hneturnar. Ég fékk barnsföður minn til að opna kókoshneturnar fyrir mig og gekk alsæl um staðinn og sogaði upp í mig þennan himneska vökva í gegnum endurunnið rörið.

Mörgum árum síðar var ég í morgunsjónvarpinu að kynna young coconut fyrir landanum. Ég hafði suðað í hr.Hagkaup, sem flutti inn lítinn gám af fagurgrænum ungum hnetum og ég var æst í að leyfa landanum að njóta með okkur. En svo kom að því að opna gripinn, ég hafði tekið með mér sveðju og vúúpppsss þetta var ekki alveg að ganga upp hjá mér. Til að bjarga mér tekur annar þáttarstjórnandinn, karlmaðurinn við sveðjunni og hnetunni. Það vill ekki betur til en að hann rennur eitthvað til með sveðjuna á frekar sleipu hýðinu og var millimetra frá því að skera sig á púls. Eftir það hringdi ég í hr. Hagkaup og bað hann um að velja þessar hvítu í framtíðinni, þær grænu væru víst fyrir innfædda.

Grænu kókoshneturnar eru ungar

Þegar kókoshnetan vex á trjánum er hún græn. Þannig er hún oftast þegar hún er skorin niður úr trjánum Þar sem miklar trefjar og hýði eru utan um hnetuna, þá er hún “rökuð” og eftir stendur hvít hneta sem frekar auðvelt er að opna þegar við höfum lært það. Ef hún er ekki skorin niður, þá fær hún að þroskast á trjánum og smá saman breytir hún um lit, trefjarnar þorna upp og hún fær brúan lit. Þannig könnumst við flest við kókoshnetur. Þegar hún er orðin brún og fullþroskuð þá dettur hún sjálf til jarðar.

Munurinn á ungri kókoshnetu og brúnni er þó nokkur. Kjötið í þessari ungu er mjúkt og hlaupkennt. Það er auðvelt að skafa það með skeið innan úr hnetunni og nota í matargerð. Það er mikið notað í hráfæði, bæði í sjeika, ís, deserta, núðlur, sósur ofl. ofl. Einnig er kaldpressaða kókosolían unnin úr ungu mjúku kókoskjöti. Kjötið innan úr brúnu hnetunni er alveg hart og þurrt og er það oftast rifið og við þekkjum það sem kókosmjöl.

Kókosmjólk ekki sama og kókosvatn

Það eru margir sem halda að vökvinn innan í kókoshnetunni sé það sem við þekkjum sem kókosmjólk. Svo er ekki því vökvinn innan í kókoshnetunni heitir kókosvatn. Innan í ungu hnetunni er vatnið sætt og ferskt en í þeirri brúnu er það orðið soldið rammt. Upprunaleg kókosmjólk er þegar við blöndum saman vatni og kjöti innan úr ungri kókoshnetu. Kókosmjólkin eins og við þekkjum hana í dag er búin til úr kókosmjöli og heitu vatni.

Það eru til nokkrar aðferðir við að búa hana til. Ein er sú að kókosmjölið er lagt í bleyti í sjóðandi heitt vatn í um 30 mín. Vatnið bara rétt flýtur yfir mjölið. Þetta er síðan sett í blandara og blandað vel saman (alveg í 5-7 min – gott að taka smá pásu til að kæla blandarann) og endað með að sigta í gegnum grisju eða þéttriðið sigti. Hægt er að endurtaka þetta, setja smá sjóðandi vatn á kókosmjölið sem eftir er og láta það síðan aftur í blandarann og í gegnum grisjuna/sigtið. Þá vitum við hvernig búa á til kókosmjólk.

 

Stútfull af frábærri næringu

Á Sanskrít er kókospálminn kallaður “kalpa vriksha” sem þýðir lífsins tré eða “tréð sem sér okkur fyrir öllu því sem við þurfum til að lifa.” Unga kókoshnetan er stútfull af frábærri næringu fyrir kropp og koll. David Wolfe segir í bók sinni Eating for beauty að unga kókoshnetan sé sá matur sem fólk getur lifað á hvað lengst ef það borðar ekkert annað. Kókosvatnið er alveg sóttherinsað. Það er í raun og veru regnvatn sem fer í gegnum ótrúlega fína síu sem eru mörg lög af trefjum áður en það kemst inn í innsta kjarnann á hnetunni.

Vatnið úr ungri kókoshnetu hefur svipaða eiginleika og blóðvökvinn. Blóðvökvinn er 55% af blóði mannsins. Restin eða 45% er blóðrauðan (hemoglobin) sem er í eðli sínu samsvarandi blaðgrænunni (chlorophyll) hjá plöntunum. Þegar við drekkum vökva sem er 55% kókosvatn og 45% safi úr grænu laufi þá erum við að gera kroppnum mjög gott.

Ég hvet ykkur til að vera dugleg að gera tilraunir með ungu kókoshneturnar. Ef ykkur vex í augum að eiga við hnetuna þá getið þið keypt ykkur kókosvatn á fernu sem kemur í staðin fyrir kókosvatnið innan í hnetunni. Þá þurfið þið ekkert að gera annað en að skrúfa tappann af…..

 

Dr. Martins kókosvatn

Dr. Martins kókosvatn er afar bragðgóður og hressandi drykkur sem er eingöngu safinn innan úr ungu kókoshnetunni og ekkert annað. Þessi safi er sérstaklega næringarríkur og orkugefandi. Margir af helstu heilsugúrúum heimsins kalla hann „vatn lífsins” því efnafræðileg samsetning kókosvatnsins er svipuð og í blóðvökvanum (blóðplasma) í líkama okkar. Þegar við drekkum kókosvatn erum við því að hreinsa blóðið.

Þetta er í fyrsta skipti sem tekist hefur að ná vatninu innan úr ungu kókoshnetunni og tappa því á fernur án allra aukaefna. Safinn er 100% lífrænt vottaður, fitulaus, kólesteróllaus, laktósa- og mjólkurpróteinlaus en ríkur af amínósýrum, vítamínum, stein- og snefilefnum og laus við öll aukaefni og geymsluefni. Við framleiðsluna á þessum drykk var fundin upp mjög nýstárleg geymsluaðferð til að varðveita gæðin og næringuna sem allra best.

 

Kókosvatnið er frábært:

  • eitt og sér, t.d. í staðinn fyrir mjólk hjá börnum með mjólkurofnæmi
  • sem hressandi drykkur fyrir og eftir ræktina
  • í hristinga, boozt og aðra drykki
  • í alls konar hráfæðisrétti, s.s. súpur, sósur, dressingar, kökur, eftirrétti o.fl.
  • í eldaðan mat í staðinn fyrir kókosmjólk, t.d. í súpur, sósur, pottrétti, bakstur o.fl.

Gangi ykkur sem allra best
Solla

 

Höfundur: Sólveig Eiríksdóttir

Previous post

Flatbökur - Pítsur

Next post

Rauðrófur - misskilda grænmetið

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *