SumarUmhverfiðUmhverfisvernd

Útimarkaðir

Það er að verða æ algengara að hægt sé að sækja svokallaða útimarkaði á Íslandi yfir sumartímann.

Þetta fyrirbæri er vel þekkt erlendis og eru þessir markaðir oftast kallaðir “Farmers markets” eða bændamarkaðir. Á góðum útimörkuðum er hægt að nálgast gæða vörur beint frá framleiðenda og er oft um heimaframleiðslu að ræða.

Á slíkum mörkuðum kennir ýmissa grasa. Þar er oftast hægt að blanda saman skemmtan og hagstæðum innkaupum. Hægt að nálgast heimatilbúnar afurðir, hvort sem er neysluvörur eða handverk ýmiss konar og þarna er kjörin leið til að komast í nánari snertingu við heimafólk.

Á öllum erlendum umhverfisvefjum er fólk hvatt til að versla á svona mörkuðum til að vinna á móti mengun sem skapast af flutningi afurða og til að byggja upp atvinnutækifæri í heimabyggð.

Hér á landi hefur regluverk komið í veg fyrir að fólk hafi í miklu mæli verið með heimaframleiðslu á neysluvörum, en nú nýlega var hleypt af stokkunum verkefni sem kallast “Beint frá býli”. Þessu verkefni er ætlað að hvetja fólk sem býr á sveitabýlum til að hefja framleiðslu á matvöru og selja milliliðalaust til neytenda.

Hægt er að sjá lista yfir aðila sem bjóða heimaframleiðslu til sölu, á vefnum http://www.beintfrabyli.is/ og er um að gera að kynna sér þá og heimsækja í sumarfríinu.

Þeir útimarkaðir sem Heilsubankanum er kunnugt um að hafa verið eða verða starfræktir eru í Mosfellsdal, á Sólheimum, á Hvanneyri, á Laxá í Leirársveit, í Lónskoti í Skagafirði, á Hrafnagili í Eyjafjarðarsveit, við Hótel Reynihlíð á Mývatni, í Breiðdalsvík á Austurlandi og til stendur að halda vikulega útimarkaði á Akureyri í sumar.

Einnig er fjöldinn allur af útimörkuðum haldinn um allt land í tengslum við aðra viðburði eins og til að mynda Fiskidaginn mikla á Dalvík og Blúsdagana á Ólafsfirði.

Það er um að gera að kynna sér hvað um er að vera á þeim stöðum sem til stendur að heimsækja í sumarfríinu og elta uppi viðburði sem þessa.

Höfundur: Hildur M. Jónsdóttir – greinin birtist fyrst á vefnum í júní 2007

Previous post

Minnkandi notkun á pappír

Next post

Getum við keypt regnskóg?

No Comment

Leave a reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *