Vítamín og bætiefni sem hægt er að taka til að flýta fyrir gróanda sára eða eftir aðgerðir
Hægt er að byrja undirbúning líkamans til að gróa eftir aðgerðir, jafnvel fyrir aðgerðina sjálfa. Góð næring og bætiefni hjálpa sárum til að gróa hraðar. Heilbrigt ónæmiskerfi, í góðu jafnvægi, hjálpar líkamanum að verjast sýkingum. Einnig eru mörg bætiefni og margar jurtir sem að hjálpa líkamanum að gróa hratt og vel eftir aðgerðir, slys og áföll.
Sink er best að byrja að taka fyrir aðgerð, það flýtir fyrir gróanda og dregur úr stærð sárs, einnig hvetur það ónæmiskerfið til að verjast sýkingum. Sinkáburður dregur úr að bakteríur nái að fjölga sér á yfirborði húðarinnar og kemur því í veg fyrir sýkingu. Hægt er að taka 30 mg daglega í 4-6 vikur fyrir aðgerð til að hafa nægar sinkbirgðir í líkamanum.
C-vítamín er einnig nauðsynlegt líkamanum og sérstaklega eftir aðgerðir, líkamsbruna og áföll. Einnig er það nauðsynlegt við myndun kollagens, fyrir húðvefinn til að gróa og draga úr örmyndunum. Það hjálpar einnig við styrkingu á ónæmiskerfi líkamans og til varnar sýkingum. Taka skal 300 mg til 1 gramm daglega eftir aðgerð og eftir áföll.
Bromelain er ensím sem finnst í ananasstilki. Það er mjög virkt gegn bólgum eftir aðgerðir og vinnur sem bólgueyðandi og ónæmisstyrkjandi. Dregur úr verkjum, mari, húðbruna og frostkali. Hafa skal í huga að bólgur eru alls ekki alltaf slæmar fyrir líkamann, þær draga blóðflæði og næringu að því svæði sem að þarfnast viðgerðar.
Chlorella eru grænþörungar sem að hvetja til frumuvaxtar og flýtir þannig gróanda á ýmsum sárum og hvetur til vaxtar bæði beina og vöðva. Virkar einnig hvetjandi á ónæmiskerfi líkamans.
Silica hjálpar húðinni að gróa, einnig liðböndum og öðrum vefjum líkamans.
D-vítamín sem fæst með sólargeislum sólarinnar, hjálpa við gróanda húðarinnar, því er talið gott að leyfa sól að skína á líkamann eftir áföll og aðgerðir. (Sjá einnig: Mikilvægi D-vítamíns)
Eftir aðgerðir skal hafa í huga að líkaminn nýtir mesta sína orku til að heila sig og flýta gróanda, því skal reyna að borða frekar létt fæði og alls ekki unnin matvæli sem líkaminn á oft erfitt með að melta. Ferskir ávextir, grænmeti og næringaríkar súpur og grænmetissafar eru tilvalið fæði fyrstu dagana. Olífuolía getur dregið úr bólgum eftir aðgerðir og því tilvalið að nota hana á salatdiskinn.
Jákvæðni er mikilvæg og slökun, líkaminn kann að heila sjálfan sig og gerir það á undraskömmum tíma, sérstaklega ef að við gefum honum næga næringu og hvíld.
Höfundur: Guðný Ósk Diðriksdóttir
No Comment